Friday, 07 June 2013 19:13

Vorfundur FEMA í Stokkhólmi

Frá Snigla síðunni:

Síðastliðna helgi var vorfundur FEMA haldinn í Stokkhólmi. Var það SMC í Svíþjóð sem átti veg að vanda að fundinum að þessu sinni. Ýmis mikilvæg mál voru rædd á fundinum svo sem skoðunarmál, ökuleyfislöggjöfin og margt fleira.

Mikill árangur hefur náðst í baráttu FEMA og aðildarfélaga þess gegn samræmingu skoðanamála í aðildarríkjum ESB. Lögð hafa verið fram gögn til staðfestingar því að ástand bifhjóla valdi sjaldnast slysum og að enginn mælanlegur munur sé á milli landa þar sem bifhjól eru skoðuð reglulega og þeim þar sem þau er ekki skoðuð. Í tveimur nefndum af þremur sem fjalla um málið hafa bifhjól verið undanskilin löggjöfinni og mun þriðja nefndin fjalla um málið í byrjun næsta mánaðar. Ef bifhjól verða undanskilin þar líka verður það áfram undir hverju landi fyrir sig að haga skoðanamálum bifhjóla eins og þau telja best.

Aðildarfélögum FEMA hefur verið að fækka undanfarin ár og því var lögð fram tillaga um að breyta lágmarks meðlimafjölda aðildarfélaganna úr 1000 í 350. Þetta hefur þau áhrif að lítil samtök eins og Sniglar borga þá lægra félagsgjald til FEMA og gerir minni samtök eiga því auðveldara með að taka þátt í samstarfinu. Með þessu á að reyna að laða að fleiri lítil samtök, meðal annars frá austur evrópu, og styrkja þannig FEMA.

Á fundinum kynntu svo MAG Ireland og SMC snjallsímaforrit sem þessi félög hafa verið að þróa. Þessi forrit eru hugsuð sem hjálpartæki fyrir bifhjólafólk og innihalda meðal annars fréttir úr umferðinni, atburði á vegum samtakanna og marg fleira sem nýtist þeim sem ferðast á bifhjólum.

Næsti vorfundur FEMA verður svo haldinn hér á landi í lok maí á næsta ári.

Read 6147 times Last modified on Friday, 07 June 2013 19:15