Saturday, 23 November 2013 16:12

#8 frá Óla bruna - Honda CBF 1000 árg 2013

Honda CBF 1000 árg. 2013

 

Alhliða mótorhjól sem var fyrst kynnt til sögunnar árið 2006, það hentar í nær allt, það er ekkert sem kemur á óvart en samt allt til staðar sem ætti að vera í nútíma mótorhjóli. Í raun ekkert sem ekki ætti að duga fyrir flesta.

Hjólið er laglegt í útliti svona þægilegar línur í því, nútímalegt útlit á feringum sem og vindhlíf sem er stillanleg og hægt að hækka og lækka um eina 120mm, sem gefur ökumanni gott skjól þegar það á við, bensíntankur er vel lagaður fyrir ökumann, hægt er að stilla sætishæð (þrjár stillingar) og áseta er þægileg. Mikið um mjúkar línur og flestum finnst hjólið fallegt að horfa á. Mælaborð er eins og oft í dag digital, hraða og snúningsmælir, klukka og bensínmælir og svo öll þessi hefðbundnu ljós, en vel læsilegt í myrkri sem og mikilli sól.

Mótor er fjögurra strokka línumótor og er nákvæmlega 998cc, með tveimur yfirliggjandi kambásum, afl er uppgefið 79kw miðað við 9.000 snúninga eða rétt um 100 hestar, þjappa er 11.2:1, er með beina innspýtingu, innspýtingar“hús“ eru 36mm og spíssar eru með 12 götum hver. En hjólið er sagt eyða mjög litlu miðað við mótorstærð .

Hjólið kemur með ABS bremsum, þ.e.a.s. hægt er að fá það með þeim búnaði, sem reyndar ætti að vera skyldu búnaður á mótorhjólum, bremsur eru samtengdar framan og aftan allt eftir átaki ökumanns á bremsur. Framdiskar eru tveir fljótandi 296mm og bremsudælur eru tveggja stimpla, að aftan er diskur 240mm og bremsudæla með einum stimpli.

Mótorinn er í raun alveg sá sami og er í Fireblade hjólinu og allir sem prufa hjólið telja afl gott, en mótor er þannig uppsettur að meira er hugsað um tog en afl, fjöðrun er mjög góð, mjúk en um leið sportleg, en um leið frábært ferðahjól. Þannig hefur CBF-inn haldið stórum aðdáendahóp ánægðum í nokkuð mörg ár og hjólið hefur þróast nokkuð frá því það var fyrst kynnt til sögunnar.

Árið 2010 urðu breytingar á hjólinu því þá kom hjólið með alveg nýrri álgrind Mono-Backbone, stillanlegum framdempurum og pústið varð fjórir í einn, en pústgreinar o.fl. eru úr ryðfríu stáli. Framfjöðrun er 41mm framdemparapípur og er stillanleg, afturfjöðrun er með einum dempara (monoshock) og eru á honum sjö stillingar með kerfi sem Honda kallar HMAS. Felgur eru 17“  sex bita úr áli. Öllum þessum mengunargræjum er komið fyrir í hljóðkútnum sjálfum og því ekki flókið að losa sig við það dót með því að skipta um kút, en nemar eru í pústgreinum. Þessar grindarbreytingar bættu aksturseiginleika hjólsins verulega.

Eins og áður sagt er aflið fullnægjandi en togið er sagt frábært og togar eins og járnbrautarlest frá 2.000 snúningum. Hljóð liggur virkilega vel og ef menn eru í þeim gír að taka hressilega á hjólinu í beygjum þurfa menn að vanda sig til að reka standpedala niður.

Niðurstaðan er sögð eitt vinalegasta hjólið á markaðinum, en er það leiðinlegt, nei alls ekki nema menn gleymi sér og haldi að þetta sé Honda CBR1000RR Fireblade. Semsagt hentar í allt, fyrir alla venjulega mótorhjólaeigendur.

Hjólið fær nær alltaf toppskori í hjólablöðum og þá í öllum atriðum þ.e.a.s. fimm af fimm mögulegum, geri aðrir betur. Hjólið á sér stóran aðdáendahóp um víða veröld og hefur haldið þeim frá því CBF-inn var fyrst kynntur til sögunnar. Meira segja ég á svona hjól og hef átt tvö, það fyrra var keypt árið 2008, en svona er þetta með þessar Hondur þetta er eins og sjúkdómur sem maður losnar ekki við, segja sumir að þetta sé svokallaður suðureyjasjúkdómur og eina þekkta lækningin er að eiga a.m.k. eina Hondu, þá helst þetta í skefjum, við að eiga tvær sofa menn betur, við kaup á þeirri þriðju eru menn einkennalausir og með því að opna alltaf daglega frábæra heimasíðu  Hondusokka nei fyrirgefið Drullusokka þá séu menn í raun læknaðir, en þurfi samt að sækja reglulega fundi með guðföður Honda Prófessor Bacon. 

Stolið og stílfært af netinu Óli bruni.

Read 2980 times