Sunday, 26 January 2014 18:44

#14 frá Óla bruna - BMW R90 = R nineT

BMW: Ræðum þetta þekkta nafn með tilkomu hins nýja R90= R nineT afmælishjóls. En fyrsta boxer mótorhjólið frá BMW var kynnt til sögunnar árið 1923 með R 32 hjólinu.

Það muna allir eftir hinu þekkta R90S BMW hjóli sem var í framleiðslu frá árinu 1973 til ársins 1976. Ef þú mannst ekki eftir því hjóli, þá hefur þú ekki verið fæddur/fædd eða bara of ungur, eða þá bara lítinn áhuga á mótorhjólum almennt (já já ég veit allir voru að horfa á CB 750 Hondur) !! Jú ég veit að það eru ekki allir hrifnir af boxer mótorum, segja að þeir eigi bara heima í Honduvængjum, VW eða Subaru. En þessi boxer mótor er fyrir svo löngu búin að sanna sig. Og nú sjáum við frábæra Cafe Racer útgáfu endurfædda í hinu nýja  R nineT, en gleymum því ekki að eflaust voru BMW verksmiðjurnar fyrstar til að koma með á markaðinn verksmiðjuframleiddan Cafe Racer árið 1973 með R90S hjólinu og endilega skoðið það hjól á netinu í þessum flotta „orange“ lit. En snúum okkur að nýja hjólinu sem var kynnt til sögunnar fyrir ekki svo löngu. En bökkum samt aðeins því hinn þekkti mótorhjóla-hönnuður Roland Sands kom með svona „Concept“ „prótótýpu“ af R90 hjólinu árið 2013, í tilefni af 40 ára afmæli R90S hjólsins, þessi hugmyndasmíði Rolands er með þeim flottari sem ég hef séð og flestir held ég vonuðu að BMW firmað myndi nota hugmynd Rolands að mestu leit, en þið bara skoðið þetta á netinu eins og áður sagt og metið niðurstöðuna. En allavega BMW fagnar 90 ára afmæli sínu með meðal annars þessu stórglæsilega hjóli (shit hvað mig langar í þetta hjól, en konan mín skilur mig ekki !!!)

Nýja hjólið er með hinum hefðbundna tveggja strokka boxer mótor, sem er loft og olíukældur, er 1170 cc. Þeir ná heilum 110 hestum útúr græjunni við 7550 rpm og togið er 119 nm/88 lb-ft við 6000 rpm. Það er nú nokkuð gott, já virkilega flott að ná heilum 110 hestum útúr loftkældum tveggja strokka mótor (skoðist af Harley). Mótorinn er með tveimur yfirliggjandi knastásum sem drifnir eru af keðju. Gírkassi er 6 gíra og að sjálfsögðu er drifskaft á hjólinu. Mótorinn er festur í túbugrind úr stáli og mótor telst eflaust partur af grind ef segja má svo. Framendi er tekin frá S1000RR hjóinu og er „upside-down, að aftan er einfaldur afturgaffall (þ.e. bara öðru megin) og gormur/dempari er fyrir miðju, fjöðrun er stillanleg. Hjólið er með teinafelgum teinar eru riðfríir, en felgurnar sjálfar eru svartar úr áli, kantlausar, eru 17“ og hjólbarðar eru 120/70 Zr að framan og að aftan 180/55 ZR. Bremsur eru tveir diskar að framan sem eru fljótandi og eru 320mm að stærð. Bremsudælur  (monoblock) eru með fjórum stimplum að aftan er einn diskur að vanda sem er 265mm og bremsudæla er tveggja stimpla og svo er að sjálfsögðu ABS. Bensíntankur er 18 lítra Annað tæknilegt er hægt að lesa betur um á netinu eða bara spyrja Eyþór í RMC eða Njál nokkurn, einnig hugsanlega einn sem stundum er kallaður BíBí.

BMW hefur semsagt svipt hulunni af þessu nýja R nineT, þessi nýi Roadster (kaffi hús rakki) er eins og áður sagt settur á götuna til að fagna 90 ára afmæli BMW og 40 ára afmæli gamla R90S hjólsins og gera það með stæl. Þetta hjól er hugsað og smíðað fyrir þá sem vilja nakið mótorhjól þar sem allt sést, nóg af hestöflum, góðir aksturseiginlegar og já rétta „lúkkið“. Áseta er þægileg en samt sportleg, en leggur engar ofurkvaðir eða álag á ökumann við hefðbundin akstur. Erlendir blaðamenn halda varla vatni og segja: Einfaldleikinn- Tilfinningar- Ekta-Alvöru og fleira í þeim dúr. Já gamli skólinn/stíllinn virkar hérna alveg, en með allri nýjustu tækni. En BMW halda sér við gamla boxermótorinn, því þeir hafa sannað sig aftur og aftur.

Þetta nýja hjól er líka hugsað fyrir þá sem vilja gera hjólið sitt öðruvísi, þ.e.a.s. breyta því (uss segja orginal old fartarnir !!) því nú þegar er hægt að kaupa slatta af aukahlutum til að „lagfæra“ útlit og það beint frá sjálfum BMW. Hægt er t.d. að fjarlægja farþegasætið og þá eru menn að horfa til gömlu Cafe Racer hjólanna. Pústkerfið er á vinstri hlið  og fer úr tveimur í einn og í tvo hljóðkúta, auðvitað skipta þessu strax út og þar eru nú þegar ýmsir möguleikar t.d. hljóðkút frá Akrapovic sem nú þegar selur kút úr Titanium. Áseta er mjög góð og sætishæð er um 30.9 tommur, þannig að hjólið ætti að henta nær öllum, háum sem lágum, sætið er frekar mjótt en sagt með fullnægjandi mýkt. Nær allir blaðamenn mótorhjólablaða ofl. hafa allir hælt akstureiginleikum hjólsins og eru líka yfir sig ánægðir með aflið í þessum tveggja strokka boxer. Hvað er hægt að biðja um meira útlit-afl-akstureiginleika og jú gott verð fyrir nær alla er það ekki !! En er hægt að verðleggja ofangreint, nei held ekki. Hver vill ekki vera á mótorhjóli sem allsstaðar er horft á og stendur undir nafni. (uss eftir allt þetta hól fæ ég afslátt hjá Eyþór!!)

Sumir segja að það sé alltaf verið að horfa til fortíðarinnar, en hvers vegna ekki, það þarf ekki að finna hjólið upp oft, nýi R nineT inn nær því, en á sama tíma er þetta alveg nútímahjól í útliti, afli og eiginleikum. Allur frágangur er til fyrirmyndar eins og nær alltaf hjá BMW, já og markaðurinn krefst þess af þessari verksmiðju.  Allur rafmagnsbúnaður hjólsins hefur verið endurhannaður frá fyrri hjólum, en svona okkar á milli í trúnaði hafa rafmagnsbilanir verið til ama hjá BMW, lesa má betur um þessa endurhönnun rafmagnsbúnaðar á netinu. Eins og mikið er um í dag er tölva í hjólinu sem segir þér nánast allt, eflaust líka hvort maturinn sé tilbúin heima. Mælar eru svona nokkuð old stæl, þ.e.a.s. stakur hraða og snúningshraðamælir, á milli þeirra er svona hefðbundið mælaborð. Þið ættuð að skoða ljósmyndir af hjólinu og þá helst sem flestar því það eru svo mörg smáatriði en þó mikilvæg sem sjá má með berum augum, sem of langt mál er að telja upp hér. Svo nú bíður maður bara spenntur eftir komu fyrsta hjólsins og heyrst hefur að það komi jafnvel snemma á þessu ári og Gróa á Leiti hefur sagt mér í trúnaði að búið sé að panta eitt nú þegar. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir, ein af gamla R90S græjunni, síðan hönnun Roland Sands og svo nýja græjan.

Óli bruni

Stolið og stílfært af netinu.

Read 2351 times Last modified on Sunday, 26 January 2014 18:47