Sunday, 14 September 2014 15:40

BMW R1200GS Adventure 2014

BMW R1200GS Adventure 2014

Off road græja fyrir „KARLMENN“

Hitti mann í gær sem er svona segja má alvarlega sýktur af BMW veirunni (ökukennari) og þá datt mér í hug að skrifa um þetta hjól. Árið 2013 komu BMW verksmiðjurnar mörgum á óvart með því að kynna fyrsta vatnskælda R1200 GS hjólið, þ.e.a.s. vatnskældan boxermótor og fyrir þá sem vita ekki hvað boxermótor er, þá eru strokkar liggjandi eins og í gamalli bjöllu, Porsche og Subaru t.d. Fram að því höfðu öll GS hjól verið olíu og loftkæld. Nú á þessu ári komur svo Bimminn með svona meira utanvega græju (allavega í útliti) sem þeir kalla svo Adventure= „ævintýri“, sem er örugglega réttnefni, því það er örugglega algjört ævintýri að brölta á þessari græju utanvegar, eða bara jafnvel á grófum malarvegi, því hjólið vigtar sjálft lítil 260 kg, svo bætast við allar töskur. Hjólið er útbúið með sama „electróníska“ tölvubúnaði sem nota má til að stilla átak til afturhjóls á allan hugsanlega máta t.d. „utanvega“ niður brekku, í bleytu, spólvörn, tölvustillanlega fjöðrun o.fl. o.fl. Mótor er heil 125 hestöfl og það ætti að duga fyrir nær alla. Hjólið er að sjálfsögðu með ABS bremsum sem er einnig hugsað sérstaklega fyrir utanvegaakstur. Framangreint er aðeins lítill hluti þess sem kemur í þessu hjóli hvað varðar tæknibúnað. Tog er alveg sérstaklega gott og með þessum „tæknibúnaði“ þá er hjólið í raun mjög þægilegt í utanvegaakstri. En eins og áður er fram komið þá er þetta engin léttavigt, Ævintýrið/Adventure hjólið er um 22. Kg þyngra en venjulega hjólið, þar af eru um 10 kg vegna stærri bensíntanks. Hjólið tekur virkilega vel við sér útúr beygjum jafnvel þó menn séu komnir undir 3000 snúninga, græjan tekur við sér í nær öllum gírum, þó hraðinn sé orðin lítill, þannig að maður svona líður milli hringtorga (hvað eru menn að nota þetta innanbæjar !!) Þetta nýja hjól er 15 hestöflum kraftmeira en gamla Adventure hjólið, en nokkuð aflminna en t.d. 150 hestafla Ducati Multistrada hjólið, ekki raunhæfur samanburður segi ég, réttara væri að miða hjólið við stóra Triumph Tigerinn. Hjólið kemur standard með stýrisdempara og það hjálpar mikið við vissar aðstæður. Hjólið er búið Brembo Monoblock bremsudælum og þær virka virkilega vel og þá sérstaklega ef ökumaður hefur stillt átak og fjöðrun í samræmi við aðstæður. Sætið er frekar mjótt en samt þægilegt, jafnvel þegar ekið er mjög lengi. Með því að mjókka sætið svona þá er þægilegra að ná til jarðar jafnvel fyrir þá sem eru svona styttri í annan endann, en hjólið er samt frekar hátt í ásetu og margir kvarta yfir því og þá sérstaklega þegar ná þarf hjólinu af hliðarstandara í halla. Það er komið nýtt framgler (vindhlíf) og fyrir svona meðal stóra er hún í fullri hæð fyrir neðan sjónlínu, rúðan er stillanleg, en til að breyta rúðuhæð á ferð þá þarf ökumaður í raun að taka hönd af bensíngjöf til að stilla rúðuhæð. Áseta er virkilega góð, nóg rými fyrir fætur, stýri liggur vel við ökumanni og er frekar hátt. Eins og áður er fram komið þá er þetta stórt hjól, en mjög meðfærilegt og þægilegt í raun, svo væntanlegir kaupendur ættu ekki að láta útlitið og stærð fæla sig frá, þetta er eins og myndir sýna algjör „töffari“ en samt gott götuhjól. Eins og venjulega er verðið „gott“ og hægt að kaupa alls konar aukahluti með græjunni t.d. hitahandföng, þrjár extra stillingar til akstur, krús „contol“, og betur stillanleg fjöðrun. Á þessu hjóli getur þú í raun ferðast um allan heiminn við nær allar venjulegar aðstæður. Það eru komin nokkur venjuleg R1200GS til landsins þ.e.a.s. þessi nýju vatnskældu og þau eru að sjá virkilega flott hjól, það þýðir reyndar ekkert að spyrja eigendur þeirra um gæði þeirra eða notkun því þú færð engin neikvæð svör, en það er samt gaman að lesa svör þeirra sem prufað hafa hjólið og já keypt það, um það má lesa á netinu eins og allt annað tæknilegt.

Stolið og stílfært af netinu

Óli bruni

Read 2559 times