Sunday, 07 December 2014 10:58

Er nokkuð mál að leigja hjól utan Íslands

Er nokkuð mál að leigja mótorhjól utan Íslands ??????

Við höfum mörg okkar velt því fyrir okkur að leigja mótorhjól á erlendri grund, þó sum okkar telji það alveg galið að getað ekki hjólað á eigin hjóli hvar sem í heiminum, en svona á léttu nótunum þá er mótorhjól tæki með tveimur hjólbörðum og einum mótor, þetta er ekki hestur sem við höfum tamið með mikilli vinnu. Einnig getum við valið hinar ýmsu tegundir, allt eftir því hvernig hjól við viljum og hvað það kostar að leigja það. Svo eru það tryggingar fyrir hjólið, ökumann, farþega o.s.frv. Tryggingar geta verið mjög misjafnar allt eftir löndum sem og leigufyrirtækjum. Sumir hald að t.d. visa platínu kort dugi ef leiga er borguð með svoleiðis korti, svarið er Nei, kynnið ykkur skilmála í þaula. Að spara í tryggingum leiguhjóls er svona að eigin reynslu eins og að treysta á veðrið á Íslandi, svo hér kemur smá saga um mann sem leigir sér hjól í útlandinu. Látum söguhetjuna taka við:

Mig hafði dreymt í mörg ár að leigja mér hjól á erlendri grund, nú ætlaði ég að láta verða af því, lífið er stutt og flýgur fram hjá manni eins og þota sem brýtur hljóðmúrinn. Ég ákvað að leigja mér alvöru hjól að mínu mati, fullvaxið BMW ferðahjól og þá meina ég ekki þessi svokölluðu off road hjól, nei eitt með öllu. Ég sá strax að þetta var ekki ódýrt, en eins og áður sagt lífið er stutt og hvað eru örfáar krónur milli vina (ja verðlausar krónur). Ég fann á netinu góða leigu í Þýskalandi og þar var allt sundurliðað eins og eðlilegt er hjá Þjóðverjanum. Leiga kostar þetta, leiga á töskum kostar þetta, leiga á GPS kostar þetta og svona má lengi telja, þú borgar fyrir allt. Svo voru það tryggingar, margar útgáfur, ég skoðaði þetta allt og sá fljótlega að auglýsta verðið var bara grunnverð leigunnar svo bætist allt ofangreint við. Það sem aðallega fór í taugarnar á mér var hvað það var dýrt að tryggja hjólið að fullu þ.e. kaskó, svo ég ákvað að taka svona lágmarkstryggingu, ég er góður ökumaður, ég ætla mér að gista á öruggum stöðum, já ég var bara flottur. En sjálfsábyrgðin var verulega há, þ.e.a.s. vegna tjóns eða þjófnaðar. Ég mæti á leiguna eftir eina nótt í Þýskalandi, það er vel tekið á móti mér og allt er tilbúið. Mjög faglegur starfsmaður fer yfir hjólið með mér og segir mér hvernig allt virkar og hvort það sé eitthvað sem vanti eða mig langi til að vita. Nei segi ég held að þetta sé allt klárt. Hann spyr mig hvert ég ætli að hjóla, ég segi honum það og þar á meðal til suður Ítalíu. Já segir hann og bætir við ert þú búin að hjóla þar áður ? Nei segi ég, hann bætir enn við og segir, það borgar sig að skoða vel hvar þú geymir hjólið, jafnvel þegar þú stoppar stutt, ertu með fullar tryggingar ? Já segi ég allt klárt og segist vera vanur að ferðast !! Ferðalagið hefst og allt gengur eins og í sögu, ég er alveg ótrúlega heppin með veður, vel gististaði bara eftir því hvert ég er komin síðla dags, áhyggjulaust líf með öllu. Síðan tekur Ítalía við og ég verð strax var við gjörbreytta umferðamenningu, þeir aka svona þrjá millimetra frá afturljósinu hjá manni, flauta mikið, þeir nenna ekki eftir að bíða eftir neinu, hvað þá óöruggum ferðamanni, stöðvunarskilda og rauð laus eru svona ágætis ábendingar fyrir þá marga !! En GPSinn leiðir mig áfram og ég venst þessu öllu, er búin að vera hjóla í þrjá daga þegar ég stöðva í meðalstórum bæ til að borða og skoða mig um. Ég legg hjólinu á áberandi stað og læsi því tryggilega og set sérstakan lás á frambremsu. Tek allt lauslegt með mér og geng úr skugga um það að þarna megi leggja mótorhjóli!! Síðan fer ég í skoðunarferð gangandi um nágrennið, tek ljósmyndir. Leita síðan að góðum matsölustað svona mömmu og pabba stað, ekkert tískudót fyrir mig, bara alvöru ítalskt. Eftir matinn geng ég til baka í átt að hjólinu og framhaldi ferðarinnar. Ég vissi nákvæmlega hvar ég hafði lagt hjólinu og nú gekk ég glaður og mettur í þessu fallega umhverfi í átt að áfangastað, hvað gæti lífið verið betra ? Nú kom ég að þeim stað þar sem hjólinu hafði verið lagt, með öllu dótinu mínu sem og hjálmi sem læstur var við hjólið. En hjólið var hvergi sjáanlegt, var ég á röngum stað ? Gat það verið að ég hafi ruglast á torgum sem og götum, nei ég var á réttum stað það var öruggt, því það voru svo mörg kennileiti sem ég kannaðist við. Það voru nokkur fyrirtæki sem og ein lítil búð þarna rétt hjá og þangað hljóp ég og hugsaði á meðan, andskotinn ferðalagið búið, ég strandaglópur og svo mundi ég líka eftir mínum tryggingarskilmálum, nú skuldaði ég á kortinu mínu stórar upphæðir sem ég var í raun engin borgunarmaður fyrir, skildi ég kannski byrja á því að loka visa kortinu þannig að ég gæti sloppið, nei þá væri ég verri enn helvítis þjófurinn sem stal leiguhjólinu mínu. Ég spurði alla þarna í nágrenni staðarins þar sem ég skildi hjólið eftir og enn hugsaði ég af hverju var ég svona öruggur með mig, ég meira að segja kaskó tryggði hjólið mitt sem ég á heima, hvílíkur asni er ég, hvernig ætti ég að útskýra þetta fyrir kærustunni sem beið heima meðan ég var að leika mér, ég yrði bara að vinna í vetur, það yrði engin skóli, annars gæti ég aldrei borgað þetta blessaða leiguhjól, eða sko sjálfsábyrgðina. Nú var það eina í stöðinni að hringja í lögguna sem og leigusala hjólsins og tilkynna þjófnað. Orð starfsmanns leigunnar glymja í eyrum mér: Ertu með góðar tryggingar ! Ég spyr fólk sem þarna er hvar er næsta lögreglustöð, það bendir mér áfram og yfir torg þar sem standa tugi ef ekki hundruð mótorhjóla af öllum gerðum og stærðum, meðan ég svona geng áfram niðurlútur með kökkinn í hálsinum og í gegnum alla þessa hjólhrúgu, þá sé ég útundan mér BMW mótorhjól sem lítur alveg eins út og hjólið mitt sem hafði verið stolið. En nei það getur ekki verið að eigandi þess eigi líka eins hjálm og ég, svo ég hleyp að hjólinu. Jú þetta er leiguhjólið mitt !! Grínlaust þá fell ég niður á hnén og það er ekki laust við að mér vökni um augun. Meðan ég er að standa upp aftur þá ganga að mér tveir nokkuð þreklegir náungar og spyrja mig á slæmri ensku: Átt þú þetta hjól ? Ég hugsa miðað við útlit þeirra „shit“ búin að finna hjólið aftur og þeir ætla að stela því, nei fyrr drepst ég, þeir sko ná því ekki. Svo ég svara með nokkurri þjósti: Yes this my motorcycle !! (já mitt hjól). Þeir brosa og segja: Sko það er sko alveg bannað að leggja hjólum þar sem þú lagðir hjólinu þínu, löggan er alltaf að láta taka hjól í burtu, þeir skemma hjólin í flutning svo þarftu að borga fyrir dýran flutning og svo sekt fyrir að leggja ólöglega, það tekur stundum nokkra daga að fá hjólin til baka og þá er líka búið að stela öllu lauslegu af þeim. Ég horfi á þá með opinn munn og þeir bæta við: Svo við nokkrir hérna hjólamenn lyftum hjólinu þínu upp að framan og færðum það hingað svo bara biðum við eftir að sjá til þín, en kannski máttum við flýta okkur meira að láta þig vita segja þeir með stóru brosi. Það liggur við að ég kyssi þá báða, en tek í hönd þeirra og þakka þeim innilega, bíð þeim borgun sem þeir neita alfarið, en ég næ að bjóða þeim uppá einn bjór. Í spjalli yfir bjórnum segi ég þeim frá ferðalagi mínu og ég ætli bara að hjóla um, ekkert visst í raun bara eftir veðri og vindum. Þeir segjast vera að fara í dagsferðalag næsta dag með nokkrum félögum og það sé virkilega fallegar leiðir sem þeir ætli að fara og gista eina nótt. Það væri gaman að fara með ykkur, en ég þarf þá að finna mér gistingu hér í bænum. Kemur ekki til greina segja þeir, þú kemur með okkur og við græjum þetta. Til að gera langa sögu stutta, þá gisti ég í góðu yfirlæti hjá móður annars þeirra og það var slegið til veislu fyrir þennan eskimóa. Daginn eftir hjólaði ég með fimm öðrum félögum þeirra, þeir voru allir á hinum ýmsu gerðum af Ducati nema einn sem ók Kawa og þeir gerðu óspart grín að félaga sínum vegna þessara örlaga að eiga útlenskt hjól. Þetta varð besti hluti ferðar minnar og ég get seint þakkað þessum mótorhjólamönnum fyrir aðstoð þeirra og viðmót. En hvað segir sagan mér: Tryggja í botn, leggja á réttum stöðum og ef lagt er rétt að læsa hjólinu við einhvern fastan hlut og það er hægt að treysta ja sumum ítölum eins og öllum öðrum þjóðernum.

Stolið einhversstaðar

Óli bruni

Read 4250 times Last modified on Sunday, 07 December 2014 11:01