Tuesday, 09 February 2016 18:43

Löng mótorhjólaferðalög eru góð fyrir heilsuna “ekki spurning”

Löng mótorhjólaferðalög eru góð fyrir heilsuna

“ekki spurning”

 

(ATH. hátíðlegar hugleiðingar um ofangreind ferðalög ! Lestur getur leitt til svefndoða !!)

 

Hvort sem um er að ræða ferðalag 23 ára gamals læknanema frá Argentínu sem fór um alla Suður Ameríku á eins strokka 500cc Norton og gerði það ferðalag frægt með bókinni Motorcycle Diaries eða aðrar góðar ferðasögur á mótorhjóli þá er það ekki spurning að þessi ferðalög hafa áhrif á þrennt a.m.k. Slökun - sjálfskoðun og endurhleðsla ef segja má svo !! Í svona ferðalögum þar sem þú þarft að treysta á sjálfan þig og græjuna sem þú ferðast á þá lærir þú margt um sjálfan þig og ef þú ferðast með öðrum þá lærir þú mikið um ferðafélaga þína.

 

En hvers vegna ætti ég að fara í mótorhjólaferðalag ? Þú átt að fara í gott ferðalag vegna þess að:

 

Mikið af skemmtilegum sögum:

 

Meðan við ferðumst verður á vegi okkar oftast mikið af ókunnu skemmtilegu fólki, við sjáum alltaf eitthvað nýtt, við borðum flest okkar öðruvísi mat, við skemmtum okkur þegar kvölda fer alltaf á nýjum stað. Þarna er aðeins lítillega farið yfir þau atriði sem verða á vegi okkar, en við munum lifa á þessu til æfiloka, því að kynnast náttúrunni sem og þeim sem við hittum er bara allt öðruvísi þegar ferðast er á mótrhjóli.

DSCF6944

 

 

 

Við lærum að þekkja okkur sjálf miklu betur:

 

Að fara í lengri ferðir á mótorhjóli og þurfa að treysta á sjálfan sig að mestu leiti kennir okkur flestum mikið um okkur sjálf. Það kemur oft fljótlega í ljós á svona ferðalögum hvað mann þú hefur að geyma, hvort sem þú ferðast einn eða með öðrum. Þú kemst fljótlega að því hvort þú hafir tekið alltof mikið með þér af búnaði eða alltof lítið, hvort sem það er, þá er það lítið mál því oftast má bara kaupa nýtt eða þvo það sem er óhreint. Flestir taka alltof mikið með sér í sitt fyrsta langa mótorhjólaferðalag. Þarftu að fara í bað daglega ? Geturðu sofið í sama herbergi og margir aðrir, eða kemur tjaldnotkun ekki til greina. Það má lengi telja en margir segja að það sem reynir mest á menn eru ferðafélagar t.d. þegar þú hefur aldrei ferðast með viðkomandi ferðafélaga og ekkert hefur verið ákveðið fyrirfram, ekki hvernig og hvar á að gista, hvar á að borða og svo hver leiðir ferðina o.s.frv. Margir hafa vaknað upp við vondan draum þegar í ljós kemur að ferðafélaginn er bara fúll á móti ef ekki er farið eftir hans hugmyndum um allt og ekkert, t.d. það ekið of hægt of hratt, of stutt á milli hjóla ofl. Gist á röngum stöðum, matstaður ekki rétt valinn. Hefur ferðalagið heppnast eftir að hafa ferðast með öðrum ? Ef spurt er: Hvernig var ferðin og myndurðu fara aftur með þessum ferðafélaga þá er oft bara öðru atriðinu svarað. En af þessu öllu lærir þú mest á sjálfan þig og lífið er sem og mótorhjólaferðalög er einn stór gagnabanki þar sem þú lærir á sjálfan þig og í leiðinni er þetta besta skemmtun í heimi.

Ameríka á hjóli 2014 063

 

 

Þeir sem þú munt hitta á ferðalagi þínu:

 

Það eru ekki til neinar leiðbeiningar í raun hvernig þú átt að koma fram við þá sem þú hittir á ferðalagi þínu, þetta á oftast við ferðalög á erlendri grund, þú verður bara að læra allt svoleiðis með eigin reynslu. En að fara í langt ferðalag mun alltaf verða mikil upplifun og allir ættu að fara í svoleiðis ferðalag allavega einu sinni á æfinni. Þessi ferðalög eru yfirleitt ekki ódýr og tala nú ekki um ef þú býrð á eyju útí ballarhafi. Ferðin þarf oftast að vera nokkuð vel undirbúin og þá sérstaklega ef nokkrir ferðast saman, en það sem lagt er fram í peningum sem og undirbúningsvinnu, er borgað margfalt til baka með skemmtilegri upplifun og minningum sem lifa með þér til loka.

Ameríka á hjóli 2014 310

 

Ferðalagið mun örugglega gera þig að sjálfstæðari einstaking:

 

Þetta á bæði við hvort sem þú ferðast einn eða með öðrum, en á meira við ef þú ferðast einn. Ef þú ferðast einn þarftu að taka allar ákvarðanir einn og sjá einn um hjólið þitt sem og annað sem þú tekur með þér. Gæturðu treyst ókunnum fyrir hjólinu þínu og farangri meðan t.d. að þú skreppur eitthvað til að borða eða annað og þér sýnist þú vera staddur í svona frekar vafasömu umhverfi ? En sagt er að öll svona reynsla skerpi bara meðvitund þína á umhverfi þínu sem og þeim sem þú kemst í kynni við. Að ferðast einn hefur líka marga kosti þú ræður hvort þú hjólar langt eða stutt, á hvaða hraða (löglegum), hvar á að gista, hvað á að borða og hvenær o.s.frv. Sem sagt þú ert þinn eigin húsbóndi.

 

Þú lærir á hjólið þitt:

 

Á lengri ferðalögum gætir þú þurft að strekkja keðju (já ég veit um Bimma með bílaskaft), skipta um kerti, perur, jafnvel bremsuklossa, já ekki má gleyma olíu og síuskiptum. Auðvitað vitum við það að þetta kunna allir ekki rétt ! En að gera við bilanir á nútíma hjólum er allt annað því oftast þarf einhvern tölvubúnað sem segir manni svo aftur að hjólið sé bilað !! En ekki er slíkur búnaður tekin með. Þá er eins gott að vita um næsta umboð eða einhvern sem gæti lagfært græjuna. Þess vegna er mikilvægt að yfirfara hjólið vel áður er lagt er í hann t.d. olíuskipti, hjólbarðar nýlegir og með réttum loftþrýsting, smyrja það sem smyrja þarf sem og barka, keðju og ef hjólið er ekið nokkuð marga km. þá að skoða vel ástand keðju og tannhjóla. Hlaða hjólið ekki of mikið af farangri og huga vel að því að fljótlegt sé að taka farangur af sem og að setja hann á. Semsagt læra vel á hjólið sitt áður en lagt er í hann, en svo sem ekkert að því að læra meira á græjunar á ferðalaginu. Ekki gleyma þeim búnaði sem þú ætlar að klæðast að hann henti vel til ferðalagsins.

 20140606 131832

 

 

 

Þú munt heimsækja staði sem þú taldir vera utan þinna marka:

Þröngar götur og sund eru oftast engin hindrun þegar þú ekur mótorhjóli og þannig kemstu á staði sem þú hefðir aldrei farið á bifreið. Síðan getur þú lagt hjóli þínu eiginlega hvar sem er án þess að verða fyrir því að fá sekt eða hjólið dregið í burtu en þetta gerist þó svo það er eins gott að skoða vel umhverfi sitt þegar þú leggur hjóli þínu, því sagan segir okkur að menn hafa komið frá því að bara að borða og hjólið er horfið, en því var ekki stolið nei það var bara bannað að leggja græjunni þarna og hún fjarlægð af einhverri dráttarbifreið. Sumir eru heppnir og aðrir hjólamenn hafa fært hjólið þitt á öruggan stað. En það miklu meira jákvætt við það að aka mótorhjóli heldur en hið andstæða.

Ameríka á hjóli 2014 450

Niðurlag:

Þessi skrif eru orðin líkari ritgerð meira segja ég er farin að “drepa tittlinga” (þið þessir eldri vitið hvað þessi setning þýðir) en ykkur til skemmtunar þá bendi ég á tvö ferðalög sem gerðir voru þættir úr og gaman að þeim báðum þó sumt sé svona “feik” í sumu þ.e.a.s. að menn séu alveg einir á ferð og verði að bjarga sér sjálfir, en þessir skemmtilegu þættir eru Long Way Round og Long Way Down. Benda má á að í seinni seríunni þá blanda eiginkonur ferðalanga í málið og þá vitið þið hvað gerist. Hvernig er hægt að bera saman að ferðast á bifreið eða mótorhjóli, nei það er bara ekki hægt, nei engin samanburður, eina sameiginlega er það að hugsanlega koma bæði tækin þér á áfangastað. En gleymum ekki einu það er ekki vegalengdin sem farin er, nei það er ferðalagið sjálft. Öfugt við marga aðra þá spyrja margir íslenskir mótorhjólamenn oft um hvað margir KM voru eknir en ekki hvort það hafi verið gaman. Jæja svo nú er bara að skipuleggja næsta mótorhjólaferðalag til fjarlægra landa ekki rétt.

Andlegra hugleiðingar stolnar héðan og þaðan:

Óli bruni

 

Read 3218 times