Tuesday, 08 August 2017 17:23

Loksins loksins, besta hjól heimsins prufað !

Loksins loksins, besta hjól heimsins prufað !

(ljósmyndir úr prufutúrnum fylgja)

 

Nú er komið að því, ég mun fá að prufa besta hjól heimsins, þetta er stór fullyrðing að kalla Suuzúúkíí Bandító 1200cc (blátt að lit) besta hjól heimsins en þetta hjól stendur algjörlega undir nafni. Ég skelf af spenningi og verð að segja frá því að ég hef sofið lítið undanfarna tvær nætur, því þessi dagur ætlaði aldrei að renna upp, er búin að bíða nú a.m.k. þrjú ár eftir þessari sögulegu stund. En hvað hefur tafið þessa prufu ? Jú það eru ýmsar orsakir fyrir því og ætla ég bara að nefna nokkur atriði: Vont veður af ýmsu tagi, t.d. of mikil sól, of lítil sól, rigning og/eða væntanleg rigning sem og annað sem snýr að veðri og jú landsleikur kvenna í fótbotla !! Svo má nefna ýmislegt með að “besta” hjól heimsins var ekki í standi til að standa undir nafni þann dag sem prufa átti græjuna t.d. of lítill vindur í hjólbörðum, of mikill vindur í þeim, hafði ekki verið skipt um olíu lengi (???), keðja nýsmurð eða ekki nægilega vel smurð ofl ofl. Svo var það auðvitað það sem tafði oftast og það var sjálfur eigandi “besta” hjólsins var upptekin við hin ýmsu mál t.d. að sinna ameríska Fíat klúbbnum eða öðrum svipuðum sem hann er í, eða hann var á ferðalagi með félögum í húsbílaklúbbnum Gómarnir, síðan var það fjórhjólaklúbburinn Þruman, en það sem oftast kom í veg fyrir þessa prufu var að hann eigandi “besta” hjólsins var að mála bílskúrinn heima hjá sér, þetta verður örugglega best málaði bílskúr heimsins, enda eðlilegt þar sem “besta” hjólið er geymt þar inni þær fáu stundir sem það er ekki í notkun.

Jæja aftur að “besta” hjólinu ég stend þarna og horfi með aðdáun á allar þessar fallegu línur, þetta er allt ein falleg heild, allt frá fjórum púströrum í rennilegt sætið, þessi blái litur sést aðeins í fallegum fjallavötnum. Hjólið er ekki einu sinni komið í gang en samt lítur það út fyrir að vera á 150 km hraða þarna sem það stendur hreyfingarlaust. Ég geng að því varlega já eins og að ótömdum graðhest, ég tala lágum tónum til “besta” hjólsins og bið það góðfúslega um að fá að gangsetja það. Ég sný lyklinum og síðan ýti ég á þennan fallega starttakka á stýrinu, áður hafði ég opnað fyrir innsogið og gefið græjunni örlítið inn, það tekur smá tíma að fara í gang með tveimur svona hálf sprengingum, sem er skiljanlegt því það er ókunnur maður að setja græjuna í gang. “Besta” hjólið fer í gang og hvílíkur hljómur já sjálfur Pavarotti uppá sitt besta hljómaði ekki svona vel. Þarna eru fjórir strokkar í gangi og hver og einn sendir frá sér himneskt hljóð. Mér var sagt að “besta” hjólið yrði að hitna nokkuð vel áður en lagt yrði í hann, á meðan hjólið er að hitna þá skoða ég öll þessi fallegu smáatriði sem ber fyrir augu, fallegt mælaborð, stýrið alveg rétt staðsett, standpedalarar alveg á háréttum stað, svona má lengi telja og ég skil vel að þeir sem lesa (allavega einn) þetta vilji fá miklu miklu námkvæmari lýsingu á “besta” hjólinu og ég lofa því að það kemur örugglega framhaldssaga !!

 

Nú er stundin runninn upp ég sest á hjólið (eftir að það var búið að hitna í fimmtán mínútur) og sætið já aldrei nei aldrei hef ég sest á eins þægilegt sæti, ég teygi mig í stýrið og já þetta er eins og að “besta” hjólið hafi verið smíðað sérstaklega fyrir mig. Ég tek í handbremsu og síðan kúplingu og set “besta” hjólið í gír, ja reyni það en hugsanlega er ég ekki nógu vanur svona græju því það þarf aðeins að taka á því til að koma “besta” hjólinu í gír, það gerist þó með smá smell/klikki og nú tek ég af stað eftir að hafa gengið úr skugga um að allir sem á horfa (voru örugglega tuttugu, skiljanlega) séu tilbúnir í að horfa á mig aka “besta” hjólinu í burtu, því ég ætlaði einn í þennan sérstaka prufutúr. Nú er það ég, gatan og hjólið, við erum ein heild sköpuð af himnasmiðnum sjálfum (sko hjólið, ekkert væmið er það nokkuð). Ég rétt tek á bensíngjöfinni og hjólið æðir áfram, þvílíkt afl, þvílíkt hljóð, þetta er fullkomið, ég skipti rólega um gíra og á örskömmum tíma þá er ég komin í 90 km hraða á klst. En eins og allir vita þá má ekki aka hraðar og reyndar hafði eigandi besta hjólsins bannað mér að fara hraðar en 100 km á klst. Sagðist ekki vilja að það sæist til þessa “besta” hjóls heimsins á einhverjum ólöglegum hraða, það hafi aldrei gerst og ætti ekki að gerast núna (sjá ljósmyndir).

Ég líð áfram eins og í draumi, aðeins fallegt hljóð þessa fullkomna fjögurra strokka mótors, vindurinn lendir lítið á mér jafnvel á þessum mikla hraða 95 km á klst, vindhlífin er eins og annað á þessu “besta” hjóli heimsins fullkomin. Ég kem að gatnamótum og bremsurnar virka fullkomlega og það er góð tilfinning að stöðva þarna á rauðu ljósi og finna að það horfa allir á mig, sko hjólið, jafnt gangandi sem akandi, já þvílík fullkomnun. Þessar fimmtán mínútur líða svo hratt að mér finnst að ég hafi aðeins verið eina mínútu á ferðinni. En eigandi besta hjólsins sagðist aðeins leyfa mér að prufa “besta” hjólið í fimmtán mínútur sem er skiljanlegt því hver myndi lána svona fullkomnun lengi ekki ég allavega. Stundin er runnin upp og ég stöðva fyrir framan eiganda “besta” hjólsins, sem stendur þarna strangur á svip og segir: Afhverju varstu svona lengi og fórstu nokkuð yfir 100 km á klst. Ég er bara orðlaus því hvernig segir maður frá fullkomnun ?? Það er ekki hægt, það er eins og þegar einhver spyr Harley eiganda: Af hverju Harley, þá segir Harley eigandinn: Ef þú þarft að spyrja þá skilur þú þetta ekki !! En að sjálfsögðu er það að bera saman “besta” hjólið og Harley eins og að bera saman fullkomin reiðhest og þreyttan Asna, það myndi engin jafnvel ekki Harley eigandi detta það í hug að bera saman “besta” hjólið og Harley: BESTA hjólið er fullkomnun, sköpuð í Japan.

 

Alveg sönn saga: Sem skrifuð er að beiðni eiganda “besta” hjólsins því boðorðið verður að bera út svo aðrir geti hugsanlega náð þessari fullkomnun: SKO með því að kaupa sér eins hjól ekki satt !!!!!

Bandit

Bandit 2

Bandit 3

Read 2483 times