Thursday, 14 September 2017 17:18

Jóga æfing

Mér leiðist svo ykkur verður líka að leiðast ekki satt !! Eins og allir vita þá skoða alvöru hjólamenn bara heimasíður hinna ýmsu mótorhjólaklúbba um allan heim en ALLS ekki Fésið, nei það gera bara gamlar kerlingar og svo einstaka laumu fésari sem skoðar allt í gegnum síðu konunar sinnar á fésinu !! Jæja nú allavega eru tveir farnir að lesa þetta “bull”, en hér fyrir neðan er smá sönn mótorhjólasaga og hún fer að sjálfsögðu (hugsanlega !!) inná heimasíðu vora/okkar.

 

Sagan:

Eins og allir vita þá er mótorhjólasportið dýrt sport, hjólið sjálft, en reyndar eru notuð mótorhjól á Íslandi orðin mjög svo ódýr miðað við önnur lönd, borgar sig engan vegin að flytja inn notað mótorhjól. Jæja aftur að dýra sportinu: Kaupa hjól, tryggja það (úff nei ég ætla ekki að kaupa tryggingarfyrirtækið aðeins að tryggja eitt hjól !!), fatnaður, hjálmur, hanskar o.s.frv. Svo þarf í raun að eiga geymslu því þessi tæki fara frekar ílla á því að geymast úti. Því er stærsti hluti þeirra sem aka um á sæmilegum mótorhjólum: miðaldra einstaklingar með sæmilegar tekjur. Svo var ekki raunin fyrir ekki svo mörgum árum, enda voru hjólin kannski ekki eins flott þá og alls ekki t.d. fatnaður eða hjálmar, þá var líka miklu algengara að menn gerðu við hjólin sín sjálfir, já sáu um nær allt viðhald, nema þá kannski stærri mótorviðgerðir.

 

Enn lengra aftur í tímann til þess tíma þegar menn óku um á alvöru mótorhjólum, sem stundum fóru í gang og “eðlilega” láku olíu, semsagt Breskt er best og svo einstaka Harley sem voru í sömu “gæðum” og Breskt er best. Þegar þessi saga gerist þá átti sögumaður Triumph Bonneville 650 árg. 1972 (oil in frame/mótorolía í grindinni). Þessi tegund af Triumph var toppurinn frá þeim og Bonneville nafnið hafði gert þessi hjól heimsfræg,en eins og allir vita já allir !! þá var t.d. 1968 og 1969 Bonnie hjólið miklu betra í raun segja flestir, betri bremsur og bara miklu betra hjól. En hættum þessu tækniröfli og snúum okkur að sögunni.

 

Að hjóla á þessum gæða Bonnie var svona ja nokkur vinna, sætið lélegt, engin vindhlíf og eðlilega titraði græjan “ágætlega”, menn sátu svona í stellingu eins og þeir væru að biðjast fyrir (eðlilega !!). En semsagt ég var búin að vera á ferðinni í nær átta klukkustundir og vegirnir voru nú ekki góðir, að mestu malarvegir. Eins og maður gerði oft þá stóð ég upp og tók svona “endúró” stöðu til að rétta úr mér og fá smá líf í fæturna. Var um það bil að setjast niður þegar hægri standpedalinn brotnaði af (uss á breskt er best !!). Ég var þarna á um ca. 70- 80 km hraða og með það sama er sólinn á lélegu skónum mínum komin í götuna og ef þið sjáið fyrir ykkur jóga kennara að sýna nemendum hvernig hægt sé að setja hægri löppina fyrir aftan höfuðið þá var þetta nær eins ! Hægri löppin á mér sveiflaðist upp og aftur með miklu afli þegar skósólinn lenti í götunni. Ég heyrði og fann þegar hægri skórinn skall á hjálmi mínum (hef aldrei verið liðugur). Þetta var sko mjög vont, mér fannst eins og klofið á mér hefði rifnað (nú skil ég konur betur sem átt hafa börn!!). Að auki nær missti ég vald á hjólinu og sveiflaðist um allan veg, en sem betur fer var lítil umferð á þessum árum og ég náði loksins valdi á minni eðalgræju og ég tel það bara heppni en ekki hvað ég er góður hjólamaður.

 jóga

 

 

Ég skrölti áfram næstu tíu til fimmtán km, eftir að ég hafði skimað eftir standpedala en sá hann hvergi. Ég stöðvaði aldrei hjólið, því ég var svo aumur í klofinu að ég vissi að ef ég myndi gera það þá færi ég eflaust ekki af stað aftur í bráð, því ekki var rafstart á hjólinu nei það var startsveif. Af hverju að halda áfram næstu, jú ég var að leita að næsta sveitabæ með einhverjum aukabyggingum, því flestir alvöru bændur áttu suðugræjur, ekki þessa til að sjóða landa, nei til að sjóða málm. Loksins sé ég sveitabæ sem virðist vera líklegur. Ég ek upp veginn að honum og stöðva á hlaðinu. Þar taka á móti mér tveir smalahundar sem ólmir vilja tala við nýja gestinn. Sem betur fer er standarinn vinstra megin á hjólinu, en það tekur mig smá tíma að skríða af baki og þá finn ég virkilega fyrir þessari nýju jóga “æfingu”. Mér svíður all hressilega í klofinu og er viss um að ég hafi rifið eitthvað þarna niðri. En þegar ég er reyna koma þessum tveimur ferfætlingum í skilning um að ég ætli ekki að tala við þá í bili allavega, heyri ég rödd segja: Heyrði góði hvað ert þú að þvælast hér á þessu skrapatóli !! (hvaða hvaða vita ekki allir að breskt er best !!). Ég horfi í áttina þaðan sem röddin kom og þarna sé ég eldri mann sem stendur þarna í hurðinni að íbúðarhúsinu og er klæddur í svona grænleitar ullarnærbuxur sem og bol, þessi undirföt hafa hugsanlega einhverntíma verið hvít, en það hefur verið fyrir löngu síðan.

 

Ég segi: Afsakaðu en ég varð fyrir smá óhappi og vantar aðstoð, en allavega heiti ég Jón Jónsson og er úr Reykjavík. Karlinn horfir á mig og klórar sér í klofinu um leið og segir: Nú ertu úr stórborginni góði og rétt í því kemur kona í dyrnar líka, hún er frekar lágvaxinn og þéttholda, með ja svona mjög svo stóra mjólkurauglýsingu framan á sér (já maður man smáatriðin). Hún tekur fram í fyrir karli sínum og segir: Gústi minn hvað er þetta því býður þú ekki unga manninum inn, maturinn er tilbúin og komndu þér nú í einhverja leppa gamli, það er komin gestur !! Sá gamli segir ekki neitt í bili, en segir svo: Komndu inn áður en hún Jóna mín fer að skammast meira í mér, bætir einnig við: Hættu svo að andskotast í hundunum “góði”.

 

Til að gera langa sögu stutta (ja fyrir þá sem enn eru að lesa) þá var mér boðið að borða, þetta var heimareykt lamb, hvít sósa og að sjálfsögðu grænar Ora baunir, kaffi á eftir og sú gamla settist aldrei hjá okkur heldur borðaði svona á hlaupum. Já ég átti erfitt með að sitja þarna, mér verkjaði illa og sú gamla spurði mig meira segja af hverju ég væri haltur. Jæja að loknum góðum mat og spjalli um hvað væri að gerast í stórborginni, þá var komið að því að spyrja Gústa bónda um hvort hann ætti suðugræjur, já eins og áður sagt ekki til að sjóða landa heldur málm ! Hann hélt það nú og sagði eitthvað á þá leið, að maður án verkfæra væri eins og gleðikona án ja viss líkamshluta. Ég og Gústi bóndi gengum að loknu spjalli yfir í eina af byggingunum sem þarna stóðu rétt við íbúðarhúsið. Þar inni var gamall Massey traktor og ýmislegt annað og það var auðsjáanlegt að þarna var allt til alls.

 

Ég var í vandræðum með að koma hjólinu í gang því ég var alls ekki vanur að nota vinstri löppina við það og ekki bætti úr því Gústi bóndi horfði á með glott á vör. En það hafðist og ég kom hjólinu fyrir og útskýrði fyrir Gústa bónda hvað mig vantaði, semsagt eitthvað járnstykki sem gæti hentað sem standpedali. Gústi bóndi skoðaði þetta í rólegheitum og tuðaði eitthvað um að Massey væri miklu betra faratæki heldur en þetta “skrapatól”. Sagði síðan: Jæja þú nærð í þjöl “góði” og sverfur burt málningu og annað þar sem ég ætla sjóða teinbút á “skrapatólið”. Ég var ekki lengi að þessu og taldi mig gera vel, en Gústi bóndi var ekki hrifin af mínum vinnubrögðu og yfirfór þetta. Sauð síðan þennan flotta tein/stykki á grindina með logsuðugræjum sínum, hann meira segja málið yfir með grunni og svartri málningu eftirá.

Þess má geta að teinninn hans Gústa bónda var enn á hjólinu þegar ég seldi það tveimur árum síðar, meira segja gúmmí hlífin sem er á standpedulum passaði á teininn góða.

 Bonnie 1972

Gústi bóndi vildi endilega að ég gisti hjá þeim, en ég vildi halda ferð minni áfram, ég átti eftir um 150 km akstur á áfangastað og nú mundi ég eftir því að mig myndi vantaði bensín, því þær lokuðu allar um kl. 18:00 eða aðeins síðar. Því spurði ég hálf aumur Gústa bónda um hvað væri langt í næstu bensínstöð ? Hann horfði á mig með glott á vör og sagði: Það er búið að loka þeim “góði” minn, vitið þið ekkert í ykkar haus þarna í borginni eða hvað, sá gamli nær í stóran brúsa og réttir mér og segir: Þetta dugar örugglega, en ætlaðir þú nokkuð að aka á loftinu !! Þegar ég var að gera mig kláran að koma hjólinu í gang þarna í skemmunni, þá kemur Jóna með kaffi og nokkra Sæmunda í sparifötunum (kremkex) og bíður okkur.

 

Jæja ferðin er hafin aftur, eftir að hafa kvatt þessi eðalhjón og já komið hjólinu í gang sem var örugglega nokkur skemmtun fyrir þau hjónin, því það tók nokkuð mörg spörk með vinstri. Ég komst á áfangastað, en næstu tvær vikur gekk ég haltur, því samkvæmt úrskurði læknis þá hafði ég í raun tognað frá nára niður í stóru tá. En áður en sögunni líkur þá lærði ég eitt af Gústa bónda um sprungur í málmi. Sko góði minn sagði hann, góð leið til að leita að sprungum í málmi er á þessa leið: Þú þrífur svæðið vel, það skal vera þurrt og gera verður þetta innivið, þú hellir smá barnapúðri yfir viðkomandi svæði og lætur sitja yfir nótt, að morgni sérðu örugglega sprungur, þar sem púðrið leitar inní, má léttilega blása yfirborðspúðrið burtu, en ekki snerta með höndum. Tek það fram að ég hef ekki enn notað þessa aðferð, en eflaust virkar hún vel.

 

Höfundi dreymdi þessa sögu eins og ýmislegt annað um: Breskt er best !!

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Read 2482 times