Welcome, Guest
Username: Password: Remember me
  • Page:
  • 1

TOPIC: #23 frá Óla bruna - Yamaha XS 650 árg. 1977

#23 frá Óla bruna - Yamaha XS 650 árg. 1977 10 years 3 days ago #4178

Yamaha XS 650 árg. 1977= Street Tracker

(sjá myndir í mynda-albúmi)

Að gera upp gamalt mótorhjól er að öllu jöfnu mikið gaman, allavega þegar vel gengur og fyrir mig hefur þetta jafnast nær alveg á við að hjóla (ja svona hér um bil), allavega þegar vetur konungur hefur tekið völdin. Þennan Yamaha (heimaha segja sumir Hondu eigendur) keypti ég af þeim eðalmanni Jóni Ásgeiri í Kickstart búðinni. Jón hafði byrjað á því að rífa hjólið og látið „powderkóda“ grind ofl. Ekki var í raun vitað um ástand mótors við kaup hjólsins. Ég byrjaði á því að fá vin minn Hjört Jónasson til að hjálpa mér við að koma Yammanum í gang og það gekk nú bara nokkuð sæmilega eftir að við komust að því að „sviss“ hjólsins virkaði ekki svo það var bara tengt beint á start „relay“ og gripurinn fór í gang, gekk bara nokkuð vel (ath. ný olía var sett á) og ekki furða því blöndunga sérfræðingur einn sem gengur undir nafninu Torfi Gull hafði komið við þessa tvo öldnu blöndunga frá hrísgrjónalandi. Eftir gangsetningu var mótor rifinn úr í annað sinn og byrjað að rífa hann til að sjá ástand innihalds og jú til að glerblása og mála það sem þurfti. Í ljós kom að nær allir slitfletir voru í góðu standi, meira segja tímakeðja. Efri hluti mótors þ.e. „cylinder“ og „hedd“ voru máluð með svörtu hitalakki og kantar slípaðir. Sveifarhús var einnig málað sem og mótorhlífar, sem sagt allt gert ORGINAL. Mótor í aftur og gagnsettur, en þess má geta að í hann er komin ný kveikja og „altenator“. En áður en mótor var gangsettur þá ákvað ég að fjarlægja allt sem viðkemur karlastarti (kickstart) og ætla að halda mér við konutakka (rafstart). Maður einn á suðureyjunni er líka búin að segja mér að hjól frá Japan þurfi ekki startsveif aðeins bresk hjól þurfi slíkt hjálpartæki þó þau séu með rafstarti. Framdemparar voru teknir í gegn, nýjar pakkdósir og olía, síðan var neðri hluti þeirra málaður. Allt nýtt í bremsur, sem og barki og dæluhús, allir nýir rofar á nýtt stýri. Ný keðja og tannhjól, nýir teinar í felgur, nýir hjólbarðar. Nokkurn tíma fór í að hugleiða hvaða pústkerfi ætti að vera á hjólinu, en flest hjól með þessu útliti þ.e.a.s. Street Tracker eru með pústkerfi tveir í einn og hljóðkútur á hægri hlið, en þá er hjólið hálf nakið vinstra megin, en allt smekkur manna. Því ákvað ég að þetta á hinn veginn þ.e. hljóðkúta á báðum hliðum. Allt pústkerfið kemur frá bestalandi (Breskt er best) og var svona aðlagað að Yammanum, pústgreinar skornar sundur og soðnar saman aftur, síðan voru þær vafðar með pústbandi, útbúnar festingar fyrir kúta o.s.frv. Það voru alls konar mælar og ljós fyrir ofan framljós, þetta var tekið í burtu og settur einfaldur hraðamælir og settar ljósa „díóður“ í lukt til að segja manni til um stefnuljós, aðalljós, hlutlausan og annað fyrir eldri borgara. Það var smá hausverkur að fela allt þetta rafmagnsdót sem hafði verið falið undir hliðarhlífum, eins og t.d. startpungur og annað, en tel að það hafi heppnast ágætlega. Nokkur pæling var í því hvort fela ætti rafgeymi en hætt var við það og hann sést í öllu sýnu veldi. Úr því að þetta útlit var valið þ.e. Street Tracker þá var að finna bensíntank (sumir nota orginal) og sætiskúpu, nokkrir aðilar framleiða þetta en er misjafnt eins og gengur og gerist.

Ég fann einn sem er á vesturströnd USA og pantaði hjá honum ýmislegt dót í endaðan september 2013 og í stuttu máli er ég ekki enn búin að fá allt=góð reynsla !!! Frambretti var lagað og afturbretti sett uppí hillu. Smá tíma var að ákveða sig með lit, en niðurstaðan varð Ferrari gulur. Maggi Jóns í Keflavík hefur málað allt fyrir mig í fjölda ára og síðustu ár hefur hans aðalmálari verið Alli, ég hef í raun bara eitt um þeirra vinnu að segja: Bestir og þakka þeim enn og aftur. Svo voru það svona smáatriði eins og stefnuljós eða ekki, en aftur öryggið á oddinn og ég setti „áttaleiðbeiningarljós“ á hjólið. Fullt var af öðru gert eins og allir þekkja sem gera upp hjól ORGINAL !! En látum þetta duga, nokkra ljósmyndir fylgja þessari sögu og látum þær enda þessa sögu, reyndar verð ég að bæta við að þegar síðasta ljósmyndin var tekin var eftir að setja afturljósið á og setja rafgeymi á sinn stað. Nú er bara eftir að sjá hvernig græjan virkar, ekki verið hægt enn því hann Kári getur ekki ákveðið sig hvort það sé enn vetur eða að koma vor.
Óli bruni (orginal)
The administrator has disabled public write access.
  • Page:
  • 1
Time to create page: 0.105 seconds